Við keppumst við að skapa hagnýt og heilbrigð vinnurými sem veita einnig möguleika á að upplifa skemmtileg og óvænt augnablik. Það er þessi óáþreifanlega þriðja vídd sem sér til þess að við séum með athygli og orku og líði þægilega með því að minna okkur á hið sammannlega. List er ein leið til að beina ljósi að þessum mannlega þætti og frá árinu 2010 höfum við hjá Google staðið fyrir ýmsum listtengdum verkefnum, meðal annars GoogleArts-námskeiðinu okkar hér innanhúss, Google Arts & Culture-framtakinu og listamannadvölinni sem við bjóðum upp á.
Í Google Visitor Experience (staðsett í nýja skrifstofurými Google, Gradient Canopy) teygist þessi hugmyndafræði okkar til samfélagsins í Mountain View í gegnum verkefni okkar þar sem hverfist um list í almenningsrými. Á víð og dreif um almenningstorgið og göngustígana eru sex listaverk sem hjálpa til við að gera Google Visitor Experience að líflegum og hlýlegum stað fyrir öll.
Verkin eru eftir listamenn hvaðanæva að og var hvert verk sérstaklega hugsað út frá staðsetningu þess. Þannig skapa þau samkomustaði og bjóða upp á tækifæri til að gleðjast og skemmta sér. Á sama tíma samræmast listaverkin háleitum markmiðum Gradient Canopy með tilliti til sjálfbærni og heilnæmra efna þar sem hvert verk er búið til úr efnum sem ekki eru tilgreind á rauðum lista (sem þýðir að þau eru laus við þau innihaldsefni sem eru hvað skaðlegust fyrir heilsu manna og umhverfis) og fylgja hugmyndafræðinni um enga sóun. Rétt eins og efnin sem notuð eru innan byggingarinnar og í henni sjálfri eru listaverkin hluti af viðleitni Gradient Canopy til að hljóta vottunina „International Living Future Institute (ILFI) Living Building Challenge (LBC) Materials Petal“.
Þegar kom að því að velja listaverk sem myndu standa við Gradient Canopy var markmið okkar að finna heillandi og forvitnileg listaverk sem myndu gera torgið að stað sem hægt væri að kanna og koma á aftur og aftur. Í stuttu máli sagt leituðumst við eftir listaverkum sem væru minna eins og safnverk og meira í anda þeirra verka sem hægt er að upplifa á Burning Man-viðburðinum í Black Rock City, sem er tímabundin borg sem sett er upp ár hvert í eyðimörkinni í Nevada og þekkt er fyrir staðbundnar innsetningar sem vekja áhorfendur til umhugsunar. Í leit okkar að listamönnum sem gætu hjálpað okkur að glæða torgið lífi og list unnum við í samstarfi við Burning Man-verkefnið við skipulagningu á samfélagsmiðuðu listaverkavali. Sökum ríkrar áherslu þeirra á samfélagslega þátttöku var Burning Man-verkefnið tilvalinn samstarfsaðili í ljósi markmiðs okkar að bjóða upp á gagnvirka þátttökulist í almenningsrými sem stuðlaði að sameiginlegri listrænni tjáningu.