Massaviður

Drögum úr losun kolefna og beinum ljósinu að viðarbyggingum.

5 mínútur

Massaviður

Sjálfbær massaviður er innleiddur í Gradient Canopy á ýmsa vegu, þ.m.t. í formgerðina, handrið og hurðir. Mynd: Mark Wickens.

Það er grundvallaratriði hjá okkur í Gradient Canopy, sem við höfum hlotið vottunina „International Living Future Institute (ILFI) Living Building Challenge (LBC) Materials Petal“ fyrir, að finna leiðir til að innleiða skaðlaus og vistvæn efni. Þess vegna skoðuðum við leiðir til að innleiða massavið sem fenginn er með sjálfbærum hætti í bygginguna til að nýta endurnýjanlega, kolefnisbindandi eiginleika viðar.

Notkun massaviðar er byggingaraðferð þar sem samþjappaður viður er notaður til að búa til súlur, bita, veggi, gólf og þök, og stuðlar að minni losun kolefna en hefðbundnar byggingaraðferðir. Niðurstaðan er áberandi massaviður hér og þar um bygginguna og sú þekking sem við öfluðum okkur í ferlinu hefur veitt öðrum byggingarverkefnum Google hvatningu til að gera slíkt hið sama.

Við höfum haft áhuga á möguleikum massaviðar í nokkurn tíma í ljósi þess að hann stuðlar að heilbrigðari, afkastameiri og fallegri vinnustað fyrir tilstilli tengsla viðarins við náttúruna. Nálægð við náttúruna snýst um að samþætta náttúru og hönnun til að skapa rými sem gera fólki kleift að blómstra. Innleiðing sýnilegs viðar í bygginguna dregur ekki aðeins úr þörf fyrir notkun annarra efna á borð við húðun og málningu, heldur stuðlar einnig að því að fólk upplifi tengsl við náttúruna, jafnvel þótt það sé innandyra. Þar af leiðandi, þegar við hófum hönnun Gradient Canopy, könnuðum við upphaflega möguleikann á því að hafa grunnstoðir byggingarinnar alfarið úr massavið, en niðurstaðan var sú að stærðin sem við föluðumst eftir leyfði það ekki. Við gátum samt sem áður nýtt við í ýmsar burðareiningar byggingarinnar.

Massaviðareiningar í Gradient Canopy birtast í krosslímdu timbri, sem er tegund af samsettum við þar sem mörg lög af gegnheilu, söguðu timbri eru límd saman til að mynda stöðugri stoðir. Við byrjuðum á því að nota krosslímt timbur sem formgerð (mót sem steypu er hellt í) fyrir steypugólfin á annarri hæð, þar sem það býður upp á samsetta styrktareiginleika. Við innleiddum formgerðina þannig að í stað þess að farga henni eftir að steypan harðnar, líkt og gert er í hefðbundnum byggingarframkvæmdum, gætum við skilið hana eftir sem sýnilegt viðarloft í rýmum á jarðhæð og í handriðum umhverfis innanhússgarðana. Hurðir og hurðakarmar hér og þar um bygginguna eru einnig úr við, einkum í fundar- og ráðstefnuherbergjum. Teymið okkar hlaut Declare-merkiðfyrir hurðasamstæðuna í heild sinni í samstarfi við söluaðilann, sem gerði okkur kleift að forgangsraða öruggari byggingarefnum til að skapa heilbrigt andrúmsloft innandyra.

Mynd: Mark Wickens.

Við skildum viðarformgerðina eftir sýnilega, bæði sem loft fyrir rýmin á jarðhæðinni og til að halda flæði við handriðin umhverfis innanhússgarðana. Mynd: Mark Wickens.

Þegar við hófumst handa við hönnun Gradient Canopy hafði krosslímt timbur ekki verið notað áður í burðareiningar á þessum skala í Mountain View. Þar af leiðandi bjuggum við til líkan af krosslímdu timbureiningunum snemma í ferlinu og buðum borgaryfirvöldum að koma að skoða bygginguna til að tryggja að hún uppfyllti kröfur þeirra. Efnislegar frummyndir hjálpuðu okkur að vinna í sameiningu að því að finna lausnir sem uppfylltu kröfur borgarinnar, á sama tíma og við leituðum sjálfbærari byggingaraðferða.

Við gengum einnig úr skugga um að viðurinn sem við innleiddum í byggingu Gradient Canopy væri fenginn með sjálfbærum hætti. Yfir 99% af því nýja timbri sem notað var í Gradient Canopy (bæði tímabundið og varanlega) kemur úr skógum sem stýrt er með ábyrgum hætti og vottaðir eru af Forest Stewardship Council (FSC). Það er óvanalegt að nýta FSC-vottað timbur í tímabundnar einingar og borð við formgerðir, sem er síðan hægt að nota aftur í verkefnum í framtíðinni. Hins vegar, vitandi að tímabundið timbur yrði stór hluti af öllu timbri sem notað yrði í verkefninu, þótti okkur einnig mikilvægt að gera ráð fyrir mögulegri endurnýtingu þess. Notkun FSC-vottaðs viðar þýðir ekki aðeins að timbrið sem við notum er fengið með sjálfbærum hætti heldur sýnir það einnig fram á að við styðjum stærri verkefni sem leggja áherslu á endurræktun skóga. Þegar öllu er á botninn hvolft teljum við að heilnæmari efni sem fengin eru með ábyrgum hætti séu ekki aðeins undirstaða sjálfbærrar þróunar, heldur stuðli einnig að víðtækara hringrásarhagkerfi sem byggist í eðli sínu á stöðugri endurnýjun og endurheimt.

Massaviður settur upp í Gradient Canopy.

Massaviður settur upp í Gradient Canopy.

Þær rannsóknir sem við framkvæmdum á massavið við hönnun Gradient Canopy eru nú notaðar við hönnun annarra Google-bygginga. Sem dæmi má nefna að í Sunnyvale, Kaliforníu, vorum við að opna 1265 Borregas, sem er fyrsta bygging okkar sem er alfarið úr massavið. Áætlað er að kolefnislosun hennar verði 96% minni en sambærilegrar byggingar úr stáli og steypu ef gert er ráð fyrir kolefnisbindingu. Þetta er aðeins eitt dæmi um hvernig sú þekking sem hefur skapast við byggingu Gradient Canopy hefur aukið viðleitni okkar til að hanna sjálfbærari og heilnæmari byggingar.