Frá stofnun Google höfum við trúað því af öllu hjarta að velgengni fyrirtækisins hvíli í höndum starfsmanna okkar. Þess vegna höfum við lagt ríka áherslu á að hanna rými okkar með ánægju og vellíðan starfsmanna Google í huga. Í Gradient Canopy nær þessi notendamiðaða hugmyndafræði til einnar af grundvallarhugmyndum okkar við skipulagningu innanrýmisins: að skipta byggingunni aðeins í tvær hæðir. Skrifborðsaðstaða og samvinnurými eru staðsett á efri hæðinni ásamt innanhússgörðum sem tengja þau við rýmin á neðri hæðinni þar sem má finna fundarherbergi, innanhússgarða og rými þar sem öll teymi geta komið saman.
Vinnurýmin á annarri hæð voru hönnuð með sjálfbærni, sveigjanleika og getu til að einbeita sér í huga. Öll efri hæðin samanstendur af forsmíðuðum herbergjum, veggjum og húsgögnum á hjólum. Það stuðlar að sveigjanleika þar sem hægt er að breyta rýmunum með einföldum hætti án sóunar í ljósi þess að hægt er að endurnýta öll efni í nýjar innréttingar. Hæðin býður einnig upp á stórt rými fyrir þá sem þurfa að einbeita sér á meðan neðri hæðin býður upp á samvinnurými þar sem hægt er að taka sér andlega og líkamlega pásu yfir daginn.
Innanhússgarðarnir á fyrstu hæð Gradient Canopy stuðla að samveru og sjá til þess að allir hafi aðgang að heilnæmu umhverfi sem hvetur til afkasta. Á hefðbundnum skrifstofum er oft að finna ýmsa aðstöðu og fyrirkomulag í bland við skrifborðsrými. Alls 20 innanhússgarðar með opnun stigum tengja hæðirnar tvær og tryggja greiðan aðgang að aðstöðu á sama tíma og þeir eru svæði með margþætt notagildi sem teymi geta nýtt sér í fjölbreyttum og sveigjanlegum tilgangi.
Auk þess að aðgreina einbeitingarsvæði frá svæðum þar sem umgangur er mikill til að auðvelda fólki að sinna starfi sínu með besta móti hafa innanhússgarðarnir einnig jákvæð áhrif sökum nálægðar við náttúruna og gera starfsmönnum Google kleift að hlaða batteríin yfir daginn. Við vitum að góð hönnun endurspeglar djúpstæð tengsl milli náttúru og heilsu manna og því innleiddum við nálægð við náttúruna í hönnun Gradient Canopy til að skapa rými sem gerir fólki kleift að blómstra. Hönnun sem byggist á nálægð við náttúruna býður upp á fjölbreytt rými sem stuðla að margþættu skynáreiti í líkingu við það sem maður upplifir úti í náttúrunni. Innanhússgarðarnir eiga þátt í að ýta undir lífeðlisfræðilega kosti hreyfingar, sem geta í kjölfarið örvað huga fólks og vakið sköpunargleði þegar fólk ferðast á milli hæða yfir daginn. Þeir hleypa einnig dagsbirtu inn í gegnum glugga neðri hæðarinnar sem staðsettir eru í ljóshæð, sem hjálpar til við að viðhalda heilbrigðri dægursveiflu.