Í áratugi höfum við kannað hvernig best er að fara að því að hanna sem heilbrigðast innanrými. Við höfum lengi lagt ríka áherslu á að skapa heilsusamleg vinnurými, allt frá því þegar stofnendur Google gengu um fyrstu byggingar okkar til að mæla loftgæði innandyra með agnaskynjara í lófanum, til prófana á þúsundum vara í gegnum árin til að tryggja að við stuðlum ekki að losun óþarfa eiturefna í uppgerðum rýmum okkar. Við erum stolt af því að Gradient Canopy er eitt af stærstu verkefnum sem hafa hlotið vottunina „International Living Future Institute (ILFI) Living Building Challenge (LBC) Materials Petal“, sem miðar að því að koma á gagnsæju hagkerfi skaðlausra og vistvænna efna.
Við byggingu Gradient Canopy og Google Visitor Experience forgangsröðuðum við efnum sem eru heilsusamleg fyrir bæði fólk og umhverfið. Hvert einasta efni sem fór í bygginguna var yfirfarið af framleiðanda þess til að tryggja að það sé laust við innihaldsefni á rauða lista LBC, sem tilgreinir skaðleg efni sem hafa neikvæð áhrif á heilsu manna og umhverfis. Alls var farið yfir rúmlega 8.000 vörur sem settar voru upp í Gradient Canopy í samstarfi við framleiðendur sem deildu viðleitni okkar til að auka gagnsæi í byggingariðnaðinum.
Markmið okkar um notkun heilnæmra efna við byggingu Gradient Canopy teygir sig langt umfram innanrýmin og þá starfsmenn Google sem vinna fyrst og fremst innandyra. Með því að skoða efnin í byggingunni að innan sem utan, þar með talin listaverkin sex umhverfis bygginguna, ásettum við okkur að forgangsraða heilsu samfélaga sem koma við sögu í aðfangakeðjunni sem og lífsferli þeirra byggingarvara sem við notuðum í heild sinni. Í ljósi þess voru efni vandlega metin í samráði við framleiðendur þeirra til að tryggja að heilbrigði væri í forgangi við val á þeim, allt frá áþreifanlegum hlutum á borð við teppi og veggi, til þeirra sem eru síður auðsjáanlegir, svo sem gluggahúðunar og einangrunar byggingarinnar.