Frá bílastæðum til fólks

Alta Garage-byggingin er hönnuð fyrir framtíð sem einkennist af færri bílum

5 mínútur

Alta Garage í eigu Google við Mountain View

Alta Garage í eigu Google við Mountain View

Yfirleitt eru bílastæðahús ekki sérlega brautryðjandi hvað arkitektúr varðar – þær þjóna nytjatilgangi í samfélagi sem reiðir sig, að miklu leyti, enn á bíla til að ferðast á milli staða. En er við lítum til mögulegrar framtíðar sem einkennist af færri bílum og fleiri sjálfbærum ferðamátum, sem mun draga úr kolefnislosun og umferðarteppum, mun þörfin fyrir bílastæðahús líklega fara hverfandi. Ef svo verður munu bílastæðahús sem notuð eru í einum tilgangi verða óþörf, sem leiðir til aukins úrgangs, kolefnislosunar og kostnaðar. Þess vegna var Alta Garage í Mountain View hannað til þess að þjóna öðrum tilgangi en að geyma bíla í framtíðinni – og bíður þess að verða breytt í atvinnuhúsnæði, íbúðarhúsnæði eða samfélagsrými þegar sú stund rennur upp.

Hugmyndin kallast framtíðarvæn bílastæði: Þegar þarfir samfélagsins breytast með tímanum gerir Alta Garage það líka. Þörf á fleiri skrifstofum, þjónustuaðstöðu eða viðburðarrými? Hægt er að breyta Alta Garage í hvað sem er af þessu þegar eftirspurn eftir bílastæðum dvínar. Þar að auki er hægt að gera það á hátt sem lækkar kostnað, sparar tíma, dregur úr úrgangi og eykur sjálfbærni.

Alta Garage 1001

Alta Garage er framtíðarvænt bílastæðahús sem býður upp á möguleikann að aðlagast þörfum framtíðarinnar.

Við höfum lengi skuldbundið okkur til að fjárfesta í sjálfbærum samgöngulausnum, þ.m.t. samflotsverkefnum, sjálfkeyrandi bílum og tækni sem auðveldar fólki að velja umhverfisvænni kosti. Þökk sé framtíðarvænni hönnun samræmist Alta Garage þessum markmiðum sem og framtíðarsýn borgaryfirvalda í Mountain View sem byggist á því að einfalt verði að lifa bíllausum lífsstíl og nýta sér sjálfbærar samgöngur.

En hvernig hannar maður bílastæðahús sem virkar sem slíkt þessa stundina en hægt er að laga að mörgum ólíkum framtíðarmöguleikum? Árið 2018 hóf rannsóknar- og þróunarteymi Google á sviði fasteigna að velta þessari spurningu fyrir sér. Verkefnið kviknaði út frá vilja stofnenda Google til að færa sig frá einkabílnum sem miðpunkti verkefna og leggja þess í stað áherslu á umhverfisvænni samgöngumáta, svo sem strætó, hjól og sjálfkeyrandi bíla.

„Við viljum byggja fyrir það sem framtíðin kann að hafa í för með sér,“ segir Michelle Kaufmann, forstjóri rannsókna og þróunar á mannvirkjasviði Google. „Við skoðuðum ýmsar byggingaraðferðir, efni, stærðir og skipulagsútfærslur á rannsóknarstofunni til að bera kennsl á forsendur þess að geta staðið að aðlögunarhæfri byggingu á sama tíma og kostnaði væri haldið í lágmarki.“

Breytt bílastæði framtíðarinnar

R&D Lab vann að því að bera kennsl á þá þætti sem myndu bjóða upp á að breyta Alta Garage í íbúðar- eða atvinnuhúsnæði í framtíðinni.

Lykillinn var sveigjanlegur og aðlögunarhæfur byggingargrunnur þannig að bílastæðahúsið gæti einn daginn öðlast nýtt líf ef þörf krefðist. Eins og húsið stendur núna eru stæði fyrir yfir 1.700 bíla og 450 hleðslustöðvar fyrir rafbíla. Þar geta bæði starfsmenn Google lagt sem og gestir sem heimsækja Google Visitor Experience. En þar sem hægt er að breyta bílastæðarömpunum í svalir og stiga er mögulegt að nota hæðirnar sem rými fyrir þjónustuaðstöðu, skrifstofur eða íbúðir í framtíðinni. Til að tryggja einföld umskipti síðar meir framkvæmdum við meira að segja rannsóknir á skilyrðum dagsbirtu í framtíðinni til að ganga úr skugga um að gólf væru í þeirri hæð að sem mest dagsbirta kæmist inn eftir að rampar eru fjarlægðir. Til að greiða fyrir breytingunum unnum við í nánu samstarfi við Clark Pacific, Gensler, Hollins, International Parking Design, Ellis Partners, SPMD Design og fleiri til að innleiða nokkra hönnunarþætti sem greina bygginguna frá hefðbundnum bílastæðahúsum.

„Sem dæmi má nefna að gólfplötur bílastæðahússins eru óvenju stórar og mjög hátt er til lofts, sem er frekar í takt við hönnun skrifstofu- eða verslunarrýma,“ segir Jeffrey Curry, forstjóri byggingaframkvæmda hjá Google. „Hægt er að taka rampana niður sem bílarnir keyra eftir til að ferðast á milli hæða og skapa þannig rými fyrir opin svæði, innanhússgarða eða svalir sem hleypa dagsbirtu inn í innanhússrými framtíðarinnar.

Alta Garage

Alta Garage var hönnuð með mikilli lofthæð og opnum útskotum svo að hægt yrði að nýta bygginguna í öðrum tilgangi í framtíðinni.

Þar að auki komu jafnslétt gólf með frárennsli í veg fyrir að við þyrftum að láta gólfin halla, sem einfaldar breytingar í framtíðinni. Forsteypta steypan var hert svo að hún stæðist meira álag, en það er í takt við það sem gengur og gerist í byggingu atvinnu- eða íbúðarhúsnæða. Það greiðir einnig fyrir uppsetningu hengiveggs þannig að hægt sé að skipta byggingunni upp í mismunandi hluta eftir að henni hefur verið breytt. Skilrúm munu einnig einfalda uppsetningu pípulagna og rafleiðsla í framtíðinni.

Umbreyting Alta Garage

Með teikningum gátum við séð fyrir okkur hvernig hægt væri að breyta Alta Garage í íbúðar- eða atvinnuhúsnæði.

Hugmyndin er sú að skapa nógu mikinn sveigjanleika þannig að hægt verði að nýta helming Alta Garage sem bílastæðahús og helming sem skrifstofurými í framtíðinni eða breyta tilgangi húsnæðisins alfarið. Framtíðarvæn hönnun krafðist þess að arkitektar bílastæðahússins gætu vendismíðað það með sama hætti og þeir hönnuðu það. Hvar yrðu stigar og lyftur staðsett í skrifstofurými framtíðarinnar? Hvar væri hægt að leggja pípur og setja upp hita- og kælikerfi, sem þyrftu að vera til staðar í íbúðarhúsnæði? „Við þurftum að byrja á því að teikna grunnmyndir íbúða og skrifstofa og vinna okkur síðan aftur á bak til að bera kennsl á þá sameiginlegu eiginleika sem hægt væri að byggja bílastæðahúsið á,“ segir Kaufmann.

Flettu í gegnum myndirnar: (1) Framtíðarvænir eiginleikar sem voru innbyggðir í Alta Garage frá upphafi og (2) viðbótareiginleikar sem hægt er að innleiða í bygginguna með einföldum hætti eftir því hvort hún verði notuð sem íbúðar- eða atvinnuhúsnæði í framtíðinni.

En það er ekki bara innanhússhönnun Alta Garage sem gerir það einstakt: utan frá lítur það ekki út eins og hefðbundið bílastæðahús. Hreyfilistaverkið „Ode to Bohemia No. 5 (Inexhaustible Blooms)“ á framhlið hússins var hannað af Kim West, listakonu frá Kaliforníu, og sá SPM Design um rannsóknir og þróun verkefnisins. Verkið er innblásið af innlendum gróðri staðarins og samanstendur af 97.500 málmplötum sem birtast í mismunandi litum yfir daginn. Listaverkið glæðir húsið lit, lífi og sköpun sem hefur jákvæð áhrif á upplifun fólks af því. Það var einnig hannað á framtíðarvænan hátt, rétt eins og byggingin sjálf – hægt er að fjarlægja málmplöturnar og færa annað síðar ef þess er þörf.

„Ode to Bohemia No. 5 (Inexhaustible Blooms)“ eftir Kim West eykur ekki aðeins fegurð og lífleika byggingarinnar heldur er verkið einnig framtíðarvænt og hægt er að flytja það um stað í framtíðinni ef þörf krefur.

Jafnvel þótt Alta Garage verði einn daginn ekki lengur notað eingöngu sem bílastæðahús verður hægt að nota jarðhæðina sem hleðslustöð og geymslu fyrir sjálfkeyrandi bíla. Á þakinu eru ljósspennusólarþiljur sem sjá byggingunni fyrir orku og hægt er að breyta bílastæðinu á þakinu í svæði fyrir hluti á borð við drónaafhendingar, fljúgandi eða sjálfkeyrandi bíla í framtíðinni.

Óháð því hvaða tilgangi Alta Garage gæti þjónað í framtíðinni var það hannað með daginn í dag og á morgun í huga.

Teikning af ljósspennusólarþiljunum á þakinu á Alta Garage, séðum ofan frá.