Fuglavæn hönnun

Dregur úr hættum fyrir fugla með byggingu sem aðlagast umhverfi sínu.

3 mínútur

Gradient Canopy-byggingin umlukin trjám

Gradient Canopy-byggingin umlukin trjám. Mynd: Iwan Baan fyrir Google.

Eitt af markmiðum okkar með Gradient Canopy var að hanna stað sem rennur saman við landslagið og eykur þanþol þess með tímanum. Í okkar skilningi eru staðir sem búa yfir „þanþoli“ þeir sem stuðla að heilbrigðu vistkerfi svæðis til lengri tíma og þar sem bæði fólk og dýralíf getur vaxið og dafnað þrátt fyrir loftslagsbreytingar. Við unnum að því að endurheimta horfna vistkerfisþætti í umhverfi Gradient Canopy til að veita dýralífi nauðsynleg lífsskilyrði. Við gerum okkur samt sem áður grein fyrir þeim hættum sem ógna dýralífi í borgarumhverfi, sér í lagi staðbundnum fuglategundum á borð við söngfugla, spörfugla, kólibrífugla og söngvara, og því innleiddum við nokkra fuglavæna eiginleika í hönnun Gradient Canopy.

Gler í byggingum getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir fuglastofna og þess vegna var okkur mikilvægt að hanna bygginguna, landslagið og lýsinguna í Gradient Canopy í samræmi við „LEED Innovation in Design Credit: Bird Collision Deterrence“ til að halda tilfellum þar sem fuglar rekast á bygginguna í lágmarki.

Til að skilja hvernig best væri að innleiða fuglavæna hönnunarþætti unnum við í samstarfi við vistfræðiráðgjafa hjá H.T. Harvey & Associates til að tryggja samræmi okkar við ströngustu staðla og ráðleggingar um fuglavænar byggingar. Að lokum fléttuðum við fuglavæna hönnun við Gradient Canopy á tvenna vegu: í fyrsta lagi með því að draga úr speglun og gagnsæi í gleri byggingarinnar og í öðru lagi með því að draga úr ljósmengun frá byggingunni á nóttunni með því að hagræða lýsingu innan- og utandyra

Gler er ósýnilegt bæði fuglum og fólki, en fólk lærir að greina gler með tímanum út frá sjónrænum vísbendingum á borð við gluggakarma og speglun. Fuglar búa hins vegar yfir lítilli dýptarskynjun og skynja oft spegilmyndir af landslagi eða himninum sem raunverulegt fyrirbæri. Gagnsæi í gleri getur einnig valdið því að fuglar rekist á það ef gróður sést í gegnum glerhorn eða ef plöntur eru innan byggingarinnar. Meginreglan er sú að því betur sem sést til gróðurs eða himins í gegnum gler byggingar, hvort sem það er vegna gagnsæis eða speglunar, því fleiri tilfelli munu koma upp þar sem fuglar rekast á bygginguna.

Í upphafi var lausn okkar við þessu vandamáli að sækjast eftir gleri með lægri endurkastsstuðul fyrir Gradient Canopy. Nýlegar framfarir í glerframleiðslutækni hafa séð til þess að auðveldara er að draga úr ytri speglun án þess að fórna vörn gegn hitamyndun frá sólinni, sem gerði okkur kleift að nýta betra gler í þá ótal glugga og framhliðar sem eru á byggingunni. Með því að bæta áberandi merkingum við glerið með stuttu millibili, til dæmis límmyndum eða innfelldum keramikfrittum, er einnig hægt að draga verulega úr fugladauða, þar sem fuglarnir greina merkingarnar sem hindrun og reyna ekki að fljúga í gegn. Við völdum þétt mynstur merkinga í samræmi við nýjustu leiðbeiningar fuglaverndunarfélags Bandaríkjanna (American Bird Conservancy), sem leggur sig fram við að veita fuglum aukna vernd, jafnvel hinum smæstu kólibrífuglum. Við hönnuðum keramikfritturnar á framhliðum Gradient Canopy sem orðagátu, þar sem nöfn 30 mismunandi innlendra fuglategunda á 30 tungumálum eru prentuð á glerið. Þetta er „páskaegg“ sem bætir ögn af skemmtun og fræðslu við skilvirka og fuglavæna hönnunina.

Fuglamynstur á gleri er hannað út frá 30 staðbundnum fuglategundum á 30 tungumálum

Fuglamynstur á gleri er hannað út frá 30 staðbundnum fuglategundum á 30 tungumálum Mynd: Iwan Baan fyrir Google.

Að lokum hönnuðum við lýsinguna í Gradient Canopy sérstaklega til að draga úr tilfellum þar sem fuglar rekast á bygginguna. Björt lýsing á nóttunni getur ruglað um fyrir fuglum, truflað staðbundið kjörlendi og haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir fuglastofna sem ferðast um á nóttunni. Við drógum úr ljósmengun frá Gradient Canopy með því að sleppa því að lýsa upp bygginguna og gróðurinn umhverfis hana og skyggja á búnað utandyra til að koma í veg fyrir að ljósið birti upp kjörlendið. Við settum einnig upp gardínur sem dregnar eru fyrir á nóttunni og festum næturskynjara við öll ljós innandyra til að tryggja að það kvikni aðeins á þeim ef einhver er í rýminu.

Til að tryggja að fuglavænir þættir í hönnun Gradient Canopy virki sem skyldi og hægt sé að gera breytingar eftir þörfum settum við einnig upp þriggja ára eftirlitsáætlun sem felur í sér reglulegar eftirlitsferðir og athuganir á svæðinu til að fylgjast með því ef fuglar rekast á bygginguna eða önnur mannvirki á svæðinu. Að öllu sögðu vonumst við til þess að innleiðing á fuglavænni hönnun muni stuðla enn frekar að samþættingu bygginga okkar við umhverfi þeirra og auka þannig getu dýralífs og fólks til að lifa í sátt og samlyndi.