Að vera hjálpsamur nágranni

Ruth Porat, aðalfjárfestingarstjóri og fjármálastjóri Alphabet og Google, ræðir hvernig heildræn nálgun á hönnun verkefnisins samþættist samfélaginu.

5 mínútur

"Góð hönnun grundvallast aldrei á einhverju einu heldur felst hún í heildrænni, alhliða og notendavænni nálgun. Hún skapar rými sem stuðla að samvinnu, hvort sem það er í eigin persónu eða í gegnum skjá."

– Ruth Porat, aðalfjárfestingarstjóri og fjármálastjóri Alphabet og Google

Hver eru persónuleg tengsl þín við Mountain View og nærliggjandi svæði?

Ég ólst upp í Palo Alto eftir að hafa flutt þangað sem barn frá Bretlandi með viðkomu í Cambridge í Massachusetts. Pabbi minn var eðlifræðingur hjá línuhraðals-rannsóknarmiðstöðinni í Stanford (Stanford Linear Accelerator Center, SLAC). Ein helsta ástæða þess að hann ákvað að flytja með fjölskylduna hingað var hversu fullur staðurinn er af lífi, fróðleiksfýsn og viðleitni til að framkvæma hluti sem höfðu ekki verið framkvæmdir áður. Sem dæmi má nefna öreindahraðalinn sem var hannaður í Stanford. Þessi lífsorka hefur síðan aðeins vaxið frá því að pabbi flutti okkur hingað.

Ruth Porat, fjármálastjóri Google og Alphabet, á COP26 í Glasgow, Skotlandi.

Geturðu sagt okkur nánar frá því hvað gerir þetta svæði svona sérstakt?

Nýsköpunarmenningin hér er smitandi og ávallt umræðuefni dagsins. Nánast allir hafa ástríðu fyrir því að gera heiminn betri – það er það sem hvetur okkur áfram hjá Google og Alphabet og ég held að það sé ástæða margra fyrir því að velja að búa og starfa hér. Það er ákveðinn drifkraftur í dalnum til að skapa þá framtíð sem við vonumst eftir og ég tel að það geri staðinn einn af þeim sérstökustu í heiminum.

Hver eru tengsl Google við Mountain View?

Mountain View hefur verið heimili Google allt frá árinu 1999 og það er ekkert fararsnið á okkur. Google valdi Mountain View fyrir höfuðstöðvar sínar vegna þess að við elskum allt sem fylgir því að vera hér. Við elskum fegurð flóans, nálægðina við háskóla, fjölskylduvænt umhverfið og möguleikann á að starfa í borg sem er staðsett í hjarta Kísildalsins.

Margir starfsmenn okkar búa bæði og starfa í Mountain View og sem fyrirtæki leggjum við ríka áherslu á að vera góður nágranni. Sem dæmi höfum við fjárfest milljónum dollara í samfélagið í gegnum árin og veitt menntamálastofnun Mountain View styrki til að efla menntun á sviði vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði (STEM), fjármagnað samfélagslega akstursþjónustu í Mountain View, samtök sem vinna að því að draga og úr koma í veg fyrir heimilisleysi og verkefni sem miða að endurheimt vistkerfisins á borð við Charleston Retention Basin.

Við erum stolt af því að á hverju ári leggja sjálfboðaliðar Google þúsundir vinnustunda af mörkum til samtaka í Mountain View, þar með talið samfélagsþjónustu Mountain View, leiguhjólamarkaðs Kísildalsins, skóla í Mountain View og hins ótrúlega safns yfir sögu tölvunnar.

Hvernig stuðla Gradient Canopy og Bay View að áframhaldandi tengslum Google við svæðið?

Gradient Canopy er fyrsta bygging okkar í Mountain View sem við byggjum frá grunni og við lögðum mikla hugsun í hvernig best væri að framkvæma verkefni sem samræmdist sýn borgaryfirvalda á framtíð North Bayshore. Gradient Canopy nálgast hugmyndir um vinnustaðinn út frá vandlega skipulagðri hönnun sem býður samfélagið velkomið, rennur náttúrulega saman við umhverfið, skapar fjárhagsleg verðmæti í borginni og styður við starfsfólk okkar sem nýtur þess að búa og starfa í Mountain View.

Frá því fyrir heimsfaraldurinn hafa vinnurými Google verið heilnæm, sjálfbær og hagnýt, með dassi af „Gúggli“ og það er einmitt það sem er heillandi við þau. Góð hönnun skapar rými sem fólk sækir í, sem sést á því að helmingur alls starfsfólks okkar á alþjóðavísu mætti af sjálfsdáðum aftur til starfa þegar skrifstofur voru aftur opnaðar innan takmarkana. Nú, með verkefnum okkar sem við þróum frá grunni, erum við fær um að beina markmiðum okkar að nærsamfélaginu út frá þeirri þekkingu sem við höfum aflað okkur. Við leggjum ríka áherslu á að finna hvernig þessi rými auka samfélagslega þátttöku og stuðla að seiglu og heilnæmari niðurstöðum.

Teikning af móttöku viðburðarmiðstöðvarinnar í Bay View með landslag og vindgöng NASA í bakgrunni.

Geturðu farið nánar út í hvernig Google skilgreinir „góða hönnun“?

Góð hönnun grundvallast aldrei á einhverju einu heldur felst hún í heildrænni, alhliða og notendavænni nálgun. Þessi nálgun sameinar tækifæri til að eiga í félagslegum samskiptum, læra, vinna með öðrum og einbeita sér. Hún skapar rými sem stuðla að samvinnu, hvort sem það er í eigin persónu eða í gegnum skjá.

Hvernig má yfirfæra þetta á þær hugmyndir sem lögðu grunn að hönnun Bay View og Gradient Canopy?

Slagorð stofnenda Google, „Leggðu áherslu á notandann og allt annað fylgir“, var leiðarljós okkar við hönnun skrifstofurýmanna frá upphafi. Fyrir þetta verkefni lágu fyrir margra ára rannsóknir og vísindi sem sýna fram á hvað stuðlar mest að afköstum og hugmyndaauðgi starfsfólks.

Fyrsta hugmyndin sem við skoðuðum fól í sér að snúa skrifstofurýminu við – að breyta tengslum á milli einbeitingar- og samvinnurýma og jafnframt tengslum þeirra við opin og lokuð rými. Það þýðir að við færum okkur frá opnum vinnurýmum, sem geta verið hindrun þegar kemur að því að einbeita sér, yfir í afmarkaða króka. Á hinn bóginn færum við okkur frá lokuðum fundarherbergjum og yfir í fjölbreyttari samvinnurými sem eru bæði opnari og sveigjanlegri og geta tekið mið af því hvers kyns samvinnu er sinnt. Tækni er augljóslega mikilvægur þáttur í þessum samvinnurýmum til að gera öllum fært að taka þátt, hvort sem þeir eru fjartengdir eða á staðnum. Með því að hafa einbeitingarkrókana við hlið sveigjanlegu samvinnurýmanna er fólki gert kleift að færa sig á milli þeirra eftir þörfum með fljótlegum hætti.

Teikning af annarri hæð og þorpi teymishverfa sem þar starfa.

Næsta hugmynd okkar snerist um jákvæð áhrif nálægðar við náttúruna á vellíðan. Við höfum verið að vinna að því að innleiða náttúrulega hönnun í skrifstofurými okkar í mörg ár með því að færa lykileiginleika náttúrunnar inn á skrifstofuna, svo sem vistvæn efni, náttúruleg efni, mynstur, hljóðheima, þægilegt hitastig, stillanlegt loftflæði og dægurbundna lýsingu.

Sumir kunna að líta á þessar ráðstafanir til að nálgast náttúruna eða stuðla að auknum loftgæðum sem óhóflegar en það er þó einnig fjárhagslegur grundvöllur fyrir því að innleiða náttúrulegra og hreinna loft á vinnustaðnum. Allt snýst þetta um að bæta líf fólks og þegar starfsfólk er heilbrigt, hamingjusamt og fært um að sinna starfi sínu með besta móti græða allir, þar með talið fyrirtækið.

Hvernig tengist þetta allt markmiðum Google í stóru myndinni varðandi samfélagsmiðaða uppbyggingu?

Markmið okkar er að mynda tengsl og verða hluti af nærsamfélaginu, með líflegum rýmum á jarðhæð sem fanga anda samfélagsins sem við búum og störfum í. Við sjáum langtímaverðmætin sem felast í því að fjárfesta í stöðum sem endurspegla gildi okkar og samfélagsins.

Upphaflega birt í maí 2022